Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 63

Góðan dag kæru landsmenn, takið eftir, ríkisstjórnin er mætt til leiks á ný!

$
0
0

Margrét Kristín Blöndal skrifar:

Það var óhugnanlegt að horfa á unga yfirstéttarkonu á framabraut lesa upp úr mannfjandsamlegu frumvarpi sínu um breytingar á útlendingalögum á Alþingi í gær.

Frumvarp sem varðar líf og framtíðarmöguleika fjölda barna og fjölskyldna, sem í örvæntingu leita á náðir okkar Íslendinga um vernd og hæli. 

Þvílíkt óbragð sem fylgir yfirlætislegum kjaftavaðli úr munni dómsmálaráðherra eftir allt sem við höfum horft upp á gerast í heiminum að undanförnu.  

Að tromma nú upp með útlendingalög Sigríðar Andersen, sem eiga að auðvelda Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála (sem fræg eru af fasískum vinnubrögðum sínum) að henda flóttafólki út í hryllilega óvissu, lífshættulegar aðstæður í Grikklandi nú eða Ungverjalandi! 

Aðstæður sem ALDREI hafa verið hættulegri en einmitt nú! 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, manneskja sem getur ekki, stöðu sinnar og stéttar vegna, einu sinni ímyndað sér hvað það er að þurfa að óttast um öryggi sitt og barna sinna eða vita ekkert hvort maður á möguleika á að leita sér lífsviðurværis og húsaskjóls í ókunnu landi. 

Áslaug Arna vill nú með frumvarpi sínu koma í veg fyrir það í eitt skipti fyrir öll að fólk sem hingað er komið þrátt fyrir að hafa hlotið vernd annarsstaðar, t.d í hryllingsaðstæðum í Grikklandi og Ungverjalandi, geti fengið málsmeðferð á Íslandi.

Undanfarið höfum við skrúfað niður í mörgum þáttum okkar samfélags og það af heilbrigðisástæðum. Við höfum blessunarlega fengið að njóta stjórnarhátta annarra en pólitíkusa í tvo mánuði.

Sameiginlegt átak náðist, fyrir tilstuðlan fólks sem sýndi ekki af sér oflæti, dómhörku eða yfirlæti. Þórólfur, Alma og Víðir áttu ekki í neinum vandræðum með að gera sig skiljanleg við okkur, íbúa þessa lands, og þau hvöttu okkur hvern dag til samstöðu um að sýna hvert öðru virðingu. Heildin myndi njóta þess að við breyttum hegðunarmynstri okkar í dálítinn tíma. 

Þau hvöttu okkur ítrekað til þess að hjálpa hvert öðru að skilja hvað væri í gangi ef þess væri þörf og þau tiltóku oftar en einu sinni einmitt hópa sem hugsanlega gætu verið í viðkvæmri stöðu og utanveltu í samfélaginu. Þau hvöttu til mannúðar og að við létum af dómhörku í garð annara.

Bullballið er byrjað aftur

Svo byrjar ballið. Já, bullballið er byrjað aftur og þetta fólk, þetta fólk sem situr í svokallaðri ríkisstjórn sem er alveg úr öllum tengslum við almenning og mylur eingöngu undir þóknanlega hagsmunaaðila og fyrirtækjaeigendur lætur eins og ekkert hafi gerst í tilveru okkar. 

Nú á ekki að láta  eitthvað Covid-ástand trufla sig við yfirganginn og löngu ákveðnar fyrirætlanir hvað varðar landlausa útlendinga! 

Góðan dag kæru landsmenn, takið eftir, ríkisstjórnin er mætt til leiks á ný!

Við ætlum nú að kosta ÖLLU til þess að fá suma útlendinga, ríka, velmegandi útlendinga, hingað til lands sem við getum grætt á! Þar liggur forgangsröðun stjórnvalda.

Við viljum hins vegar EKKI útlendingana sem eiga ekkert nema vonina um betra líf og skipta því engu máli í augum frjálshyggjukapítalistanna og þykjustu velferðarsinnanna sem hér eru við völd.

Ónei, því þeim fylgir, ofan á allt annað, óþolandi kostnaður! Það má kannski líta á þennan þjóðfélagshóp sem samanstendur af fólki af holdi og blóði sem einhverskonar „taprekstur“? 

Fjárhagslega óhagkvæmar manneskjur

Það kom nefnilega alveg skýrt fram í máli Áslaugar Örnu á þinginu í dag að það væri fjárhagslega mjög hagkvæmt fyrir ríkið ef frumvarpsbreytingarnar yrðu að lögum. Vill hún spara ríkinu pening með því að losna MJÖG HRATT við flóttafólkið sem biður hér um hæli eða vernd og ekki svona hægt, eins og verið hefur hingað til? 

Það sér hver manneskja að þessi kostnaður er svimandi svona í miðri kreppu, svo maður gerist nú kaldhæðinn. Hvaða siðleysi er þetta eiginlega? 

Þetta er algerlega ólíðandi að ráðamanneskja vaði fram með þetta mannfjandsamlega viðhorf sem birtist hér hjá Áslaugu Örnu og er henni og félögum hennar í ríkisstjórninni til háborinnar skammar! 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 63